Aðalfundur Kópavogsdeildar

13. mar. 2012

Fimmtudaginn 8. mars var haldinn aðalfundur Kópavogsdeildar og mættu um 30 manns á fundinn. Fundarstjóri var Svanfríður Lárusdóttir. Rúna H. Hilmarsdóttir, fulltrúi kjörnefndar kynnti frambjóðendur en auk hennar sátu Anna Þrúður Þorkelsdóttir og Garðar Briem í nefndinni. Tveir nýir stjórnarmenn voru kjörnir í stjórn. Katrín Þórðardóttir var kjörin í aðalstjórn til eins árs og Aðalheiður Gylfadóttir var kjörin í varastjórn til eins árs. Kópavogsdeild býður nýja stjórnarmenn velkomna til starfa. 

Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir var endurkjörin formaður deildarinnar til tveggja ára. Hallgrímur Þorsteinsson og Ívar Kristinsson voru báðir endurkjörnir í aðalstjórn til tveggja ára. Þeir Arnfinnur Daníelsson og Björn Kristján Arason voru kjörnir til tveggja ára í varastjórn. Skoðunarmenn reikninga voru kjörnar til tveggja ára þær Alfa Kristjánsdóttir og Arndís Ósk Ólafsdóttir. Deildin færir fráfarandi stjórnarmönnum, Sigrúnu Árnadóttur og Samúel Erni Erlingssyni, bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf. 

Á fundinum fór Ingibjörg Lilja yfir skýrslu stjórnar og kynnti framkvæmda- og fjárhagsáætlun fyrir árið 2012. Ívar Kristinsson, gjaldkeri stjórnar, kynnti ársreikninginn fyrir 2011 og var hann lagður fyrir fundinn til samþykktar. Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða.

Upplýsingar um starfsemi deildarinnar á síðasta ári er að finna í ársskýrslu sem kynnt var á fundinum og má skoða hana hér.