Nýr starfsmaður Rauðakrosshússins í Kópavogi

28. feb. 2011

Egill Atlason hóf störf hjá deildum Rauða krossins í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi fyrir skemmstu en hann gegnir stöðu verkefnisstjóra Takts – Ungt fólk til athafna. Egill sinnir verkefni sem er tilkomið vegna samstarfs Rauða krossins og Vinnumálastofnunar og kallast Taktur - Ungt fólk til athafna en samstarfið er  hluti af átaki félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar. Tilgangur verkefnisins er að virkja atvinnulaus ungmenni á aldrinum 18-24 ára, stuðla að virkni og starfshæfni þeirra og sporna gegn erfiðum félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum sem oft fylgja langvarandi atvinnuleysi. Þátttakendur fá þjálfun til að sinna hefðbundnum sjálfboðaliðaverkefnum hjá deildum Rauða krossins en einnig er gert ráð fyrir nýjum verkefnum.
 

Egill er menntaður hagfræðingur og hefur unnið ýmis störf sem tengjast ungu fólki. Hann hefur meðal annars unnið sem kennari á unglingastigi, með börnum með sérþarfir og sem þjálfari.

Kópavogsdeild býður Egil hjartanlega velkominn til starfa.