Eldhugar undirbúa viðburð gegn fordómum

14. mar. 2011

Unglingarnir í Eldhugum Kópavogsdeildar standa í ströngu þessa dagana við að undirbúa  viðburð í Smáralind sem þeir hyggjast taka þátt í á fimmtudaginn næstkomandi, þann 17.mars  kl. 17.30. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Rauða krossins, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Æskulýðsstarfs þjóðkirkjunnar og Alþjóðatorgs ungmenna  sem standa saman að því fagna fjölmenningu á Íslandi. Viðburðurinn er haldinn í tengslum við alþjóðadaginn gegn kynþáttamisrétti sem er 21.mars en þá koma þúsundir manna saman til að kveða niður kynþáttafordóma og misrétti í Evrópu.
 

Í ár sjá Eldhugar meðal annars um að vera kynnar  á viðburðinum og hafa unnið að undirbúningi um helgina ásamt samstarfsaðilum. Krakkarnir unnu allan laugardaginn í smiðjum í Salaskóla þar  sem unnið var í slagorða –og barmmerkja gerð, leiklistarsmiðju, mannréttindasmiðju og fleiri smiðjum sem  allar miðuðu að því að undirbúa viðburðinn. Í lok þess dags héldu Eldhugar síðan í sólarhringsferð með öðrum ungmennum úr Rauða kross starfi í Bláfjöll þar sem þau áttu góðar stundir saman.
 

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í Rauðakrosshúsinu á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum leik, ljósmyndun, leiklist og kynningar, auk þess sem samverurnar eru hugsaðar sem vettvangur fyrir unglinga úr ólíkum áttum til að hittast og hafa gaman saman.