Ungir sjálfboðaliðar safna til styrktar börnum í neyð

21. mar. 2011

Margir lögðu leið sína á hinn árlega fatamarkað Plússins sem ungir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar  héldu í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs á laugardaginn var. Á markaðinum voru seld notuð föt til styrktar börnum sem enn búa við mikla neyð eftir jarðskjálftana á Haítí fyrir rúmu ári. Full þörf er á áframhaldandi stuðning þar og nauðsynlegt að halda áfram að styðja við þau verkefni sem fyrir eru og þarfnast neyðaraðstoðar, þó svo að ný og krefjandi verkefni séu að bætast við. Fötin voru seld á mjög vægu verði, nærri allt undir þúsund krónum, auk þess sem fólk gat fengið að prútta niður verð á stærri flíkum. Salan gekk vel og alls söfnuðust hátt í fimmtíu þúsund krónur.
 

Að auki var var Alþjóðatorg ungmenna með svokallað lifandi bókasafn á staðnum en það er líkt og venjulegt bókasafn þar sem lesendur koma og fá lánaða bók í takmarkaðan tíma. Munurinn felst bara í því að bækurnar í lifandi bóksafni eru fólk og bækurnar og lesendur spjalla saman. Markmið lifandi bókasafns er að vinna gegn fordómum og eru bækurnar fulltrúar ólíkra hópa í samfélaginu, hópa sem oft mæta fordómum, búa við misrétti og /eða félagslega einangrun.
 

Kópavogsdeild Rauða krossins þakkar öllum þeim sem mættu í Molann og tóku þátt í að styrkja gott málefni og fræðast um lifandi bókasafn í leiðinni. Þar að auki eiga þakkir skyldar ungu sjálfboðaliðarnir fyrir óeigingjarnt starf í þágu mannúðar.
 

Plúsinn er vettvangur fyrir fólk á aldrinum 16–24  ára til þess að taka þátt í sjálfboðnu starfi og hafa áhrif á samfélagið sitt með ýmsum hætti, með markmið og hugsjónir Rauða krossins að leiðarljósi. Allar nánari upplýsingar um verkefni Plússins má nálgast hér, í síma 554 6626 eða á [email protected].