Viltu tala meiri íslensku?

4. apr. 2011

Um liðna helgi hittist hópur innflytjenda og sjálfboðaliða sem taka þátt í verkefninu Viltu tala meiri íslensku?  Verkefnið hófst í janúar  2009 en á samverunum gefst innflytjendunum tækifæri til að tala íslensku við íslenska sjálfboðaliða og þannig þjálfa sig í notkun málsins. Hópurinn hefur hist vikulega í vetur í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs en þess fyrir utan hefur hann einnig hist á kaffihúsum og farið á listasýningar svo eitthvað sé nefnt.
 

Þátttakendur í verkefninu koma frá ólíkum löndum og eru nú til að mynda frá Póllandi, Frakklandi, Írlandi, Kosovo, Víetnam, Spáni, Englandi, Þýskalandi og Rússlandi. Þeir kunna mismikið í íslensku en lítil íslenskukunnátta er engin fyrirstaða fyrir skemmtilegum og gagnlegum samverustundum hópsins. Allir eru velkomnir til að taka þátt, sama hver kunnáttan er.
 

Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér þetta tækifæri og æfa sig í íslensku geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.