Geta pabbar ekki grátið?

4. apr. 2011

Hjálparsími Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaki vikuna 4. – 10. apríl undir yfirskriftinni ,,Geta pabbar ekki grátið?“ Á þessum tímum efnahagsþrenginga eru fjárhagsáhyggjur mjög algengar og ófáir upplifa mikinn kvíða vegna þess. Langvarandi fjárhagsáhyggjur leiða auðveldlega til kvíða, streitu og jafnvel þunglyndis sem getur sligað sterkasta fólk. Slík vanlíðan er eitthvað sem aldrei má gera lítið úr. Margir hverjir eiga mjög erfitt með að ræða um vandamál sín, jafnvel við sína nánustu og sitja því einir með hugsanir sínar. Það að tala um líðan sína getur verið stórt skref í átt að því að byrja að takast á við vandann. Þá getur verið góð lausn að hringja í Hjálparsímann 1717 þar sem hægt er að ræða við hlutlausan aðila í fullum trúnaði og fá hlustun, stuðning og upplýsingar um úrræði.
Með átakinu ,,Geta pabbar ekki grátið?“ vill Hjálparsíminn benda á að karlar ekki síður en konur þurfa á hlustun að halda um hvernig þeim líður. Karlar eiga stundum erfitt með að ræða um vandamál sín opinskátt og eru fjármálaáhyggjur þeirra ekkert undanskildar því. Reynsla Hjálparsímans sýnir að karlar sem nýta sér þjónustu 1717 eru oft mjög langt leiddir í vanlíðan þegar þeir taka þetta fyrsta skref að tala opinskátt um líðan sína. Þrátt fyrir að átaksvikan beini sjónum sínum að þessu sinni að körlum er öllum velkomið að hringja og fá sálrænan stuðning og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru. Hjálparsíminn vann að undirbúningi átaksvikunnar í samstarfi við Umboðsmann skuldara sem veitti upplýsingar um öll þau úrræði sem standa einstaklingum og heimilum í boði vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga. Að auki fengu sjálfboðaliðar Hjálparsímans 1717 fræðslu frá Umboðsmanni skuldara.
Hjálparsími Rauða krossinn 1717 er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem vilja ræða sín hjartans mál í trúnaði og nafnleysi við hlutlausan aðila. Númerið er gjaldfrjálst úr öllum símum og það birtist ekki á símareikningnum að hringt hafi verið í 1717. Sjálfboðaliðar Hjálparsímans hafa allir fengið sérstaka þjálfun og fræðslu til að sinna sálrænum stuðningi fyrir innhringjendur og veita upplýsingar um leiðir út úr ýmsum vanda.