Gestir athvarfa Rauða krossins sýna myndlist í Kringlunni

8. apr. 2011

Gestir í athvörfum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu hafa í vetur málað myndir, mest á masónítplötur með akrýllitum en einnig á striga. Þeir efna nú til sýningar á verkum sínum í Kringlunni, og verður hún opnuð í dag, föstudaginn 8. apríl kl. 13:30.

Rauði krossinn rekur þrjú athvörf fyrir fólk með geðraskanir á höfuðborgarsvæðinu: Vin i Reykjavík, Læk í Hafnarfirði og Dvöl í Kópavogi. Markmið athvarfanna er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðsjúkdóma er að stríða.

Sjálfboðaliðar með myndlistarmenntun hafa leiðbeint listamönnunum, og svo hafa þeir reyndari aðstoðað byrjendur.

Nú hefur verið efnt til sýningar á afrakstrinum, og verður hún opnuð föstudaginn 8. apríl kl. 13:30 á neðri hæð Kringlunnar.  Sýningarskilrúm standa í rými nærri Vínbúðinni og Body Shop, og stendur sýningin fram til 17. apríl.

Prince Valíum, sem líka gengur undir nafninu Þorsteinn K. Ólafsson, ætlar að tengja tölvu sína í tilefni opnunarinnar og spila fyrir gesti og gangandi nýjustu lögin sín.