Börnin í Enter bjuggu til handverk fyrir markað Kópavogsdeildar á morgun

15. apr. 2011

Börnin í Enter verkefni Kópavogsdeildar hafa nú lokið við að búa til lyklahirslur og lyklakippur sem seldar verða á markaði deildarinnar á morgun laugardaginn, 16. apríl. Vinnan hefur gengið vel hjá börnunum og afraksturinn glæsilegur. Börnin í Enter eru 9-12 ára innflytjendur úr Álfhólsskóla í Kópavogi en þau hittast einu sinni í viku í húsnæði deildarinnar og fá meðal annars málörvun og taka þátt í ýmsum tómstundum í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki.

Markaðurinn verður haldinn í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 11-16. Þar verður einnig selt fleira handverk sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, prjónavörur fyrir allan aldur, föndur og heimagerðar kökur. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf.


Kópavogsdeild hvetur sem flesta til að mæta, kaupa góðgæti fyrir helgina eða sniðugar gjafir og styrkja gott málefni í leiðinni.