Bestu þakkir til sjálfboðaliða eftir vel heppnaðan markað!

16. apr. 2011

Fjöldi fólks lagði leið sína í Rauðakrosshúsið í Kópavogi í dag og gerði góð kaup á markaði MK-nema en markaðurinn er lokaverkefni þeirra í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Til sölu voru alls kyns prjónavörur og handverk sjálfboðaliða deildarinnar, brjóstsykur, lyklakippur og þá höfðu nemendur einnig útbúið veglegan kökubasar. Alls söfnuðust tæplega 230 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til verkefna innanlands.
 

Meðal sjálfboðaliða sem unnið hafa handverk fyrir markaðinn er Oddur Jónsson Kópavogsbúi og einn elsti sjálfboðaliði Kópavogsdeildar, en Oddur er fæddur þann 20. apríl 1915 og fagnar því  96 ára afmæli í næstu viku. Oddur mætti á markaðinn færandi hendi líkt og ávallt en hann lagði til gríðarlega mikið magn af sokkum og vettlingum sem hann vinnur bæði hratt og vel. Að eigin sögn hefur hann mikið gagn og gaman af sinni vinnu þrátt fyrir að sjónin sé farin að daprast aðeins.
 

Fjölmargir aðrir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar komu að markaðinum með einum eða öðrum hætti og vill deildin færa þeim innilegar þakkir fyrir ómetanlegt framlag. Þá vill deildin einnig þakka þem sem keyptu vörur á markaðinum og styrktu innanlandsstarf deildarinnar með þessum hætti. Stuðningur ykkar skiptir okkur miklu máli.


Oddur Jónsson, tæplega 96 ára sjálfboðaliði kom færandi hendi með veglegt framlag til markaðarins.