Tvær vinkonur héldu tombólu til styrktar Rauða krossinum

26. apr. 2011

Vinkonurnar Guðbjörg Ýr og Helena Lilja héldu tombólu í Krónunni í Lindum til styrktar Rauða kossinum. Þær seldu meðal annars fótboltamyndir og skopparabolta en einnig báðu þær fólk um að leggja góðu málefni lið með því að gefa pening til styrktar börnum í neyð. Alls söfnuðu þær 10.243.- krónum og má því segja að vel hafi tekist hjá þeim stöllum.

Peningurinn rennur síðan í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu. Það er ráðstafað einu sinni á ári úr sjóðnum í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

Þessar stúlkur eru dæmi um þau fjölmörgu börn sem árlega styrkja ýmis góð málefni með álíka hætti. Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í Rauðakrosshúsið í Kópavogi, Hamraborg 11, alla virka daga á milli kl. 9-15.