Kópavogsdeild færir nemum Sjá 102 viðurkenningu

13. maí 2011

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru 28 í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, í athvarfinu Dvöl og í Sunnuhlíð. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um markað í Rauðakrosshúsinu sem haldinn var þann 16. apríl síðastliðinn. Á markaðinum mátti finna ýmist handverk sjálfboðaliða frá aldrinum 7 ára upp í 96 ára. Þá var einnig bakkelsi til sölu  sem nemendur höfðu útbúið sjálfir. Að þessu sinni rann allur ágóði markaðarins til neyðaraðstoðar innanlands. Markaðurinn gekk mjög vel og alls söfnuðu MK-nemarnir 230 þúsund krónum. 
 

Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossinum. Nemendur vinna sjálfboðið starf yfir önnina í samráði við Kópavogsdeild. Meðal verkefna í boði eru störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, störf í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn og  félagsstarf með 13-16 ára ungmennum af íslenskum og erlendum uppruna. Þá sinntu nemendur einnig sjálfboðaliðastarfi í Sunnuhlíð, dvalarheimili aldraðra í Kópavogi, þar sem þeir tóku þátt í samverum vistmanna og aðstoðuðu einnig í virknisetri þeirra.