Gaf hluta fermingapenings til Malaví

16. maí 2011

Anna Rún Arnfríðardóttir, nemandi í 8.bekk Kópavogsskóla, kom færandi hendi á dögunum til Kópavogsdeildar með peningagjöf að upphæð 20.000 krónur. Upphæðin var hluti  fermingarpeningsins hennar og vildi Anna Rún láta þessa fjárhæð renna til góðs. Hún óskaði eftir því að peningurinn rynni til alþjóðaverkefna en hún hafði einnig tekið þátt í Göngum til góðs síðastliðið haust og vildi að peningurinn rynni í sama málstað. Peningagjöfin verður því nýtt til að styrkja starf Rauða kross Íslands í Malaví en hann hefur unnið að hjálparstarfi þar síðan 2002. Mikill árangur hefur náðst í starfi Rauða kross Íslands í Malaví í þau ár sem samvinnan hefur staðið og má til að mynda nefna að árið 2009 nutu um 3.600 börn aðstoðar og fengu tækifæri til að sækja skóla ásamt því að fá fæði og klæði og félagslegan stuðning. Áætlað er að efla verkefni Rauða krossins í Malaví enn frekar á næstu árum, meðal annars með því fjármagni sem safnaðist í landssöfnuninni Göngum til góðs í október 2010.

Kópavogsdeild er stolt af því að ungir Kópavogsbúar vilji láta gott af sér leiða með þessum hætti og færir Önnu Rún bestu þakkir fyrir óeigingjarnt framlag.