Blómlegu barna-unglingastarfi vetrarins fagnað

20. maí 2011

Krakkarnir sem taka þátt Enter- starfi fyrir unga innflytjendur í Kópavogi og Eldhugum- starfi Kópavogsdeildar fyrir  unglinga af íslenskum og erlendum uppruna hafa nú lokið starfi sínu í vetur og héldu upp á það með sínum hætti. Börnin í Enter fóru í hestaferð með öðrum deildum af höfuðborgarsvæðinu en Eldhugarnir hittu jafnaldra sína úr starfi Hafnarfjarðardeildar þar sem meðal annars var haldin myndasýning úr starfi vetrarins. Starfið í vetur hefur verið í miklum blóma bæði í Enter og Eldhugum og krakkarnir tekið þátt í ýmsum spennandi verkefnum en þátttakendur í báðum verkefnum hafa sömuleiðis verið af fjölbreyttum uppruna eða frá Víetnam,Tælandi, Haítí, Rúmeníu, Póllandi, Portúgal, Spáni, Litháen og Rússlandi.
 

Enter börnin tóku þátt markaði deildarinnar þar sem þau bjuggu til handverk, þau fengu að kynnast tónlist frá ýmsum heimshornum, heimsóttu Þjóðminjasafnið og fengu fræðslu um fordóma og einelti. Þá var reglulega málörvun og vettvangsferðir í nágrenni Kópavogs þar sem börnin fengu að kynnast ýmisskonar menningu, íþróttum, starfsemi og afþreyingu í þeirra nærsamfélagi.
 

Þema annarinnar hjá Eldhugum voru mannréttindi og misrétti en í gegnum allt þeirra starf eru hugtökin vinátta, virðing og umburðarlyndi einnig ávallt höfð að leiðarljósi. Þeir fóru í næturferð í Bláfjöll eftir að hafa tekið þátt í heilum degi af smiðjum þar sem mannréttindafræðsla var þungamiðjan. Þá tóku Eldhugar einnig þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti þar sem þeir tóku þátt í því að vekja athygli á fjölmenningu. Krakkarnir fengu einnig fræðslu um fordóma og einelti, kennslu í skyndihjálp, kynningu á framandi menningu og löndum, auk þess sem þeir fengu að  kynnast sjálfboðaliðastörfum með ýmsum hætti.
 

Kópavogsdeild vill þakka öllum þeim sjálfboðaliðum og leiðbeinendum sem tóku þátt í Enter -og Eldhugastarfinu í vetur, auk þeirra sem gáfu vinnu sína með öðrum hætti en þeirra framlag skiptir sköpum við að gera starfið mögulegt.