Kópavogsdeild fékk viðurkenningu fyrir Eldhuga, Enter og Takt á aðalfundi Rauða kross Íslands

25. maí 2011

Aðalfundur Rauða kross Íslands var haldinn í Stapanum í Reykjanesbæ laugardaginn 21.maí.

Á annað hundrað fulltrúar af öllu landinu sóttu fundinn og voru veittar viðurkenningar til verkefna sem rjúfa félagslega einangrun, sinna berskjölduðum og efla ungmenni í samfélaginu. Kópavogsdeild tók við viðurkenningu fyrir verkefnin Eldhuga og Enter. Í Enter hittast ungir innflytjendur einu sinni í viku í deildinni og er markmiðið að auðvelda börnum af erlendum uppruna að aðlagast íslensku samfélagi og virkja þeirra þátttöku í því. Verkefnið er unnið í samvinnu við mótttökudeild nýbúa í Álfhólsskóla og hófst árið 2004. Eldhugar eru unglingar í Kópavogi á aldrinum 13-16 ára. Þar vinna íslensk og erlend ungmenni  að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Verkefninu er einnig ætlað að skapa grundvöll fyrir ungmenni af ólíkum uppruna til að hittast og hafa gaman saman.

Einnig fékk deildin viðurkenningu fyrir að taka þátt í átaksverkefni á vegum Vinnumálastofnunnar sem bar heitið Ungt fólk til athafna - Taktur. Þar fékk ungt atvinnulaust fólk að kynnast sjálfboðastörfum ásamt því að fá aðstoð í atvinnuleit og ferilskrárgerð.

Á fundinum var samþykkti ný stefna til grundvallar starfsemi Rauða kross Íslands til ársins 2020. Stefnan var unnin í samræmi við sameiginlega stefnu allra landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Myndir af fundinum á Facebook.