Undirbúningur hafinn fyrir haustið!

4. ágú. 2011

Rauðakrosshúsið í Kópavogi hefur opnað aftur eftir sumarlokun og undirbúningur fyrir verkefni haustsins er því hafinn. Nú þegar eru nokkur námskeið komin á döfina sem hægt er að skrá sig á. Kópavogsdeild býður upp á þrjú skyndihjálparnámskeið á haustmánuðum þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Þá verður boðið upp á tvö námskeið Slys og veikindi barna þar sem meðal annars er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Frá september býður Rauði kross Íslands upp á grunnnámskeið Rauða krossins einu sinni í mánuði en á þeim námskeiðum er farið yfir störf hreyfingarinnar hér heima sem og á alþjóðavettvangi. Það er ætlað sjálfboðaliðum og öðru áhugafólki um málefnið. 

Áhugasamir eru eindregið hvattir til að skrá sig á námskeiðin með því að smella á hlekkina hér fyrir ofan eða hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]. Þátttakendur á öllum námskeiðunum fá staðfestingarskírteini frá Rauða krossinum.