Viðtal við sjálfboðaliða: Íris Sigurðardóttir

25. ágú. 2011

Íris Sigurðardóttir er ungur sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeildinni sem sinnir sjálfboðnu starfi í verkefninu Viltu tala meiri íslensku? Hún, ásamt fleiri sjálfboðaliðum, sér um vikulegar samverur þar sem íslenskir sjálfboðaliðar hitta fólk af erlendum uppruna sem vill æfa sig í að tala íslensku. Markmiðið er að gefa þeim sem vilja læra meiri íslensku tækifæri til að nota málið og auka við orðaforða sinn.

Íris hafði lengi hugsað um að gerast sjálfboðaliði og gera gagn. Hún segir: „Maður getur alltaf fundið tíma til að gera eitthvað sem gerir öðrum gott og þá fer manni sjálfum líka að líða betur.“ Hún segist hafa kynnst yndislegu fólki sem býr yfir ótrúlegum krafti og metnaði og hún dáist að því. Það er hvatning fyrir hana að sjá hvað fólk getur lagt mikið á sig til að ná markmiðum sínum.

Henni finnst skemmtilegast við starfið að geta hlegið „og haft gaman með frábæru fólki og fengið tækifæri til að tala og tala af því að það er svo skemmtilegt!“. Að lokum mælir hún með að fólk sem vill sýna viljann í verki gerist sjálfboðaliðar því „það sé alltaf hægt að finna eitthvað sem hentar öllum, gott leiðir yfirleitt til góðs“.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér sjálfboðin störf hjá Kópavogsdeild geta smellt á hlekkina fyrir hvert verkefni hér til vinstri á síðunni en einnig er hægt að hafa samband við deildina í síma 554 6626 og með tölvupósti á [email protected].