Framkvæmdastjóri Rauða krossins í Síerra Leone heimsækir Kópavogsdeild

21. mar. 2012

Í gær kom Emmanuel Tommy, framkvæmdastjóri Rauða Krossins í Síerra Leone, í heimsókn til Kópavogsdeildar en hann er hér á landi til þess að taka þátt í Málefnaþingi Rauða krossins um alþjóðlegt hjálparstarf.

Ástæða þess að Emmanuel heimsótti Kópavogsdeild sérstaklega er sú að deildin er með svokallað Vinaverkefni sem miðar að því að aðstoða ungmenni við að koma undir sig fótunum eftir stríðshörmungar í Síerra Leone. Þar eru rekin endurhæfingarathvörf þar sem ungmenni læra að lesa og skrifa og fá þjálfun í iðngrein að eigin vali en Vinaverkefnið er hluti af langtímaverkefni í alþjóðlegu hjálparstarfi sem Rauði kross Íslands tekur þátt í. Kópavogsdeild styður við afmarkaða verkþætti innan verkefnisins en þeir eru ákvarðaðir í samstarfi við alþjóðasvið Rauða kross Íslands hverju sinni. Stuðningurinn miðar þó alltaf að því að aðstoða ungmenni við að vinna að sinni iðngrein eftir útskrift.

Hópur sjálfboðaliða úr Vinaverkefninu og stjórn deildarinnar tóku vel á móti Emmanuel. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir, formaður deildarinnar, kynnti fyrir honum helstu verkefni deildarinnar og  Arndís Ósk Ólafsdóttir, hópstjóri sjálfboðaliða í Vinaverkefninu fór sérstaklega í gegnum starf hópsins og aðkomu Kópavogsdeildar að verkefninu. Hún sagði frá nýjum fjáröflunarhugmyndum hópsins og leiðum sem hann vinnur að með það að markmiði að geta stutt enn frekar við ungmennin í endurhæfingarathvarfinu.

Kópavogsdeild fagnar því að fá slíka heimsókn og því tækifæri að geta kynnt fyrir framkvæmdastjóranum þátt deildarinnar í viðamiklu hjálparstarfi.

Sjálfboðaliðahópur Vinaverkefnis Kópavogsdeildar fundar alla jafna mánaðarlega þar sem unnið er að samstarfinu með ýmsum hætti, ákvarðanir teknar varðandi verkþætti, auk tilfallandi fjáraflana eða frekari þátttöku sjálfboðaliða að eigin frumkvæði. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í að skipuleggja verkefnið geta haft samband við Rauðakrosshúsið í Kópavogi í s. 554 6626 eða sent póst á hrafnhildur@redcross.is.