Vitundarvakningarviðburður gegn kynþáttamisrétti

26. mar. 2012

Ungmenni úr starfi Rauða krossins í Hafnarfirði, Kópavogi, Kjósarsýslu og Borganesi tóku þátt í viðburði í Smáralind á föstudaginn síðastliðinn. Var hann liður í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti sem haldin er ár hvert og er 21.mars alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Í ár var slagorðið "Opnaðu augun! Fordómar leynast víða". Var því ætlað að vekja athygli á því að birtingarmyndir kynþáttamisréttis eru ólíkar eftir löndum og menningarsvæðum en kynþáttamisrétti nær yfir vítt svið - allt frá fordómum til ofbeldisverka. 

Viðburðurinn var haldinn í samstarfi  Mannréttindaskrifstofa Íslands, Þjóðkirkjuna og ÍTR. Krakkarnir dreifðu bæklingum um kynþáttafordóma og kynþáttamisrétti og fræddu fólk um málefnið. Ýmislegt annað var í boði eins og að taka þátt í lukkuhjóli, setja mark sitt á listaverk og skoða ljósmyndir. Þátttakendurnir lögðu sjálf til skemmtidagskránna þar sem danshópurinn ICE Step kom fram, Melkorka Rós Hjartardóttir sigurvegari Söngkeppni Samfés 2012 söng, Stúlknahljómsveitin Að Eilífu Einar steig á stokk og dansararnir Emmanuel og Sudip dönsuðu einnig hip hop fyrir gesti og gangandi.