Samningur um rekstur Rauðakrossbúðanna á höfuðborgarsvæðinu

13. apr. 2012

Deildir á höfuðborgarsvæði hafa gert með sér samstarfssamning um rekstur Rauðakrossbúðanna á svæðinu og mun Kópavogsdeild Rauða krossins fara með stjórnun verkefnisins fyrir hönd deildanna. Markmiðið með sölu á notuðum fatnaði í Rauðakrossbúðunum er að afla tekna í Hjálparsjóð Rauða kross Íslands, fyrir 1717 og deildir á svæðinu. Sandra Grétarsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Kópavogsdeild en hún gegnir stöðu rekstrarstjóra Fataverslana Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. Sandra er lögfræðingur að mennt og starfaði m.a. í mörg ár sem þjónustu- og verslunarstjóri Símans í Kringlunni.

Fataverkefni Rauða krossins er margþætt og skiptist í fatasöfnun, fataflokkun, fataúthlutanir, sölu á notuðum fatnaði í Rauðakrossbúðunum og Föt sem framlag. Um 450 sjálfboðaliðar starfa í þessum verkefnum, ýmist við afgreiðslu í Rauðakrossbúðunum, söfnun og flokkun fatnaðar og með þátttöku í verkefninu Föt sem framlag.

Þeir sem vilja taka þátt í þessu öfluga starfi og gerast sjálfboðaliðar í Rauðakrossbúðunum geta haft samband við Kópavogsdeildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.