Námskeiðin Börn og umhverfi að hefjast hjá Kópavogsdeild

23. apr. 2012

Námskeiðin Börn og umhverfi eru að hefjast hjá Kópavogsdeild Rauða krossins. Fullbókað er á námskeiðið sem hefst í dag. Næstu námskeið verða 7.-10. maí og 21.- 24. maí. Enn eru laus pláss á þau námskeið og hægt að skrá sig hér

Hvert námskeið skiptist á fjóra daga og kennt er í þrjá tíma í senn. Leiðbeinendurnir eru leikskólakennari og hjúkrunarfræðingur. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Fyrstu tvo dagana er lögð áhersla á samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Þriðji og fjórði dagurinn snúast svo um slysavarnir, algengar slysahættur og ítarlega kennslu í skyndihjálp. Þar að auki fá þátttakendurnir innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

Námskeiðið Börn og umhverfi hefur verið afar vinsælt undanfarin ár meðal ungmenna sem eru á 12. aldursári og eldri. Allir þátttakendur fá staðfestingarskírteini að loknu námskeiðinu.