Fimm ára afmæli Dvalar fagnað

9. okt. 2003

Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða, hefur nú verið starfandi í fimm ár. Afmælinu var fagnað í fjölmennri veislu í húsnæði athvarfsins að Reynihvammi 43 í Kópavogi í dag. Dvöl var formlega opnuð 10. október 1998 að frumkvæði Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands sem rekur athvarfið í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstri Dvalar er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða.

Í afmælisveislu Dvalar lýsti Garðar Heimir Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands, yfir ánægju með rekstur athvarfsins og sagðist vona að Dvöl myndi halda áfram að blómgast um ókomin ár. Fulltrúar Kópavogsbæjar og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi tóku undir orð Garðars.

Fleiri afmælisgestir tóku til máls og lýstu minningum sínum tengdum Dvöl á undanförnum árum. Anna Rósa Magnúsdóttir, einn af fastagestum Dvalar, kvaddi sér hljóðs og þakkaði fyrir að geta komið í Dvöl. Annar tíður gestur í Dvöl, Eyjólfur Kolbeins, talaði mjög hlýlega um athvarfið og sagði að starfsemin hefði náð að virkja sig á margan hátt. Eyjólfur sagði að tala mætti um „stanslaust sólskin“ frá opnun Dvalar og hinna athvarfa Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða sem eru Vin í Reykjavík, Laut á Akureyri og Lækur í Hafnarfirði.

Opið hús á laugardaginn
Laugardaginn 11. október kl. 13-16 verður opið hús í Dvöl fyrir þá sem vilja kynna sér starfsemi athvarfsins. Einstaklingar sem eiga við geðraskanir og geðsjúkdóma að stríða eru hvattir til að kíkja við sem og ættingjar, vinir og aðrir áhugasamir.