Kópavogsdeild styrkir Fjölsmiðjuna

5. nóv. 2003

Kópavogsdeild afhenti nýverið Fjölsmiðjunni styrk að upphæð 1.890.000 krónur. Féð verður notað til þess að byggja upp tækja- og vélakost trésmíðadeildar Fjölsmiðjunnar. Fjölsmiðjan er mennta- og þjálfunarsetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára sem ekki hefur náð að fóta sig í námi og á vinnumarkaði. Trésmíðadeild er ein af fimm deildum sem starfræktar eru í Fjölsmiðjunni. Hinar eru hússtjórnardeild, bílaþvottadeild, garðyrkjudeild og prent- og tölvudeild.

Rauði kross Íslands átti frumkvæði að því að Fjölsmiðjan var stofnuð í Kópavogi vorið 2001 og var meðal stofnenda. Deildir Rauða kross Íslands á höfuðborgarsvæðinu standa straum af launagreiðslum til nema á aldrinum 16-18 ára.

Kópavogsdeild hefur komið að uppbyggingu trésmíðadeildar Fjölsmiðjunnar með dyggum hætti því auk styrksins nú veitti deildin Fjölsmiðjunni 2,3 milljóna króna styrk til uppbyggingar trésmíðadeildarinnar árið 2002. Með þessari uppbyggingu vonast Kópavogsdeild til að trésmíðadeild Fjölsmiðjunnar verði kleift að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem henni og nemendum hennar er ætlað að sinna.