Bingó og söngur í Sunnuhlíð

19. nóv. 2003

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar skipulögðu nýverið bingó og söngstund í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Öllum vistmönnum Sunnuhlíðar stóð til boða að taka þátt í bingóinu. Sjálfboðaliðar Rauða krossins stjórnuðu drættinum og aðstoðuðu vistfólkið við spilamennskuna. Að endingu var sungið saman við píanóundirleik og söngstjórn sjálfboðaliða.

Öflugur hópur um 25 sjálfboðaliða Kópavogsdeildar tengist Sunnuhlíð. Alla virka daga, fyrir og eftir hádegi, standa sjálfboðaliðarnir fyrir samverustundum þar sem þeir spjalla við vistfólkið og lesa fyrir það. Sjálfboðaliðar fara einnig í gönguferðir með þá sem vilja, spila á spil og tefla við áhugasama. Með jöfnu millibili eru síðan viðburðir á borð við bingó, dagsferðir, öskudagsfagnað og jólagleði.