Mikill áhugi á starfi með ungum innflytjendum

12. feb. 2004

Kynningarfundur um starf með ungum innflytjendum var haldinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands í vikunni. Um tuttugu tilvonandi sjálfboðaliðar mættu til að fræðast um verkefnið sem unnið verður í samvinnu við mótttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla og enn fleiri hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Einu sinni í viku eftir skóla mun nemendum mótttökudeildarinnar standa til boða að koma í sjálfboðamistöð Kópavogsdeildar þar sem þeir geta meðal annars fengið aðstoð við heimanámið, málörvun og fræðslu um félagsstarf í Kópavogi í gegnum kynningarstarf og vettvangsferðir. Undirbúningur vegna verkefnisins er á lokastigi og verður því hleypt af stokkunum mjög fljótlega.