Samstarf við nemendur í Menntaskóla Kópavogs

9. mar. 2004

Nemendur í félagsfræði þróunarlanda komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í síðustu viku og fengu kynningu á þróunarstarfi Rauða krossins. Gestur Hrólfsson fræddi nemendurna og kennarann þeirra, Hjördísi Einarsdóttur meðal annars um alnæmisverkefni Rauða krossins í Zimbabwe.

Gestur sagði mikilvægasta framlag sjálfboðaliða Rauða krossins í Afríku kunna að vera það fræðslu- og forvarnarstarf sem þeir inna af hendi meðal fjölskyldna og þorpssamfélaga um alla álfuna. Það væri starf sem oft fari lítið fyrir en beri ríkulegan ávöxt.

Kópavogsdeild hefur einnig átt í samstarfi við nemendur í þroskasálfræði í MK og héldu Pálína Jónsdóttir heimsóknavinur og Fanney Karlsdóttir framkvæmdastjóri erindi í tíma hjá nemendum í þroskasálfræði ekki alls fyrir löngu. Starfsemi Kópavogsdeildar var kynnt og fjallað um öldrun og virkni aldraðs fólks í sjálfboðnu starfi.