Vel heppnuð heimsókn til bæjarstjóra Kópavogs

31. mar. 2004

Nemendur í mótttökudeild nýbúa í Hjallaskóla heimsóttu í síðustu viku Sigurð Geirdal, bæjarstjóra Kópavogs. Heimsóknin var skipulögð af Kópavogsdeild Rauða krossins sem farið hefur af stað með nýtt verkefni sem kallast starf með ungum innflytjendum.

Verkefnið felur í sér að nemendurnir koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir geta meðal annars fengið aðstoð við heimanámið, málörvun og fræðslu um félagsstarf í Kópavogi í gegnum kynningarstarf og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er hugsað sem eins konar samfélagsfræðsla sem börnin og sjálfboðaliðar geti haft gagn og gaman af.

Tíu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sjá um að skipuleggja verkefnið sem farið var af stað með í byrjun mars. Á döfinni er umfjöllun um náttúru Íslands, heimsókn í framleiðslufyrirtæki, landkynning á heimalöndum nemendanna og föndur en nemendurnir hyggjast búa til listaverk sem sýnt verður á opnu húsi Kópavogsdeildar á alþjóðadegi Rauða krossins 8. maí.