Farþegar Iceland Express hjálpa Rauða krossinum að hjálpa börnum

10. maí 2004

Farþegar með flugvélum Iceland Express geta nú losað sig við afgangsklink í ferðum til og frá Íslandi og hjálpað í leiðinni yngstu fórnarlömbum stríðsátaka. Féð rennur allt til verkefna Rauða krossins til hjálpar börnum í stríði, sem eru áhersluverkefni Rauða kross Íslands í alþjóðlegu hjálparstarfi.

Þetta var kynnt á Alþjóðadegi Rauða krossins og Rauða hálfmánans, 8. maí, á opnu húsi Kópavogsdeildar Rauða krossins. Börn starfsmanna Iceland Express og starfsmanna og sjálfboðaliða Rauða kross Íslands afhentu á táknrænan hátt erlent klink og seðla til söfnunarinnar, sem þau höfðu safnað heima hjá sér og sem safnast hafði meðal flugfarþega á síðustu dögum.   Börn á átakasvæðum standa berskjölduð gegn matarskorti, kulda og óöryggi. Á hverju ári stíga um 9.000 börn á jarðsprengju einhvers staðar í heiminum. Hlutverk Rauða krossins er að hlúa að börnum á stríðssvæðum, draga úr þjáningum þeirra og hjálpa þeim að eygja von.

Á næstunni mun Rauði kross Íslands leggja áherslu á verkefni til hjálpar börnum á fjórum stríðssvæðum veraldar, í Afganistan, Kongó, vestanverðri Afríku og á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna.

Fjöldi fólk lagði leið sína á opna húsið en þar var meðal annars haldin tombóla og ágóðinn af henni, 13.361 krónur, rennur til hjálpar börnum í stríði. Auk þess voru til sýnis myndir sem ungir innflytjendur máluðu af draumalandinu sínu.