Kópavogsdeild fékk viðurkenningu sem vel starfandi deild

24. maí 2004

Kópavogsdeild,  ásamt Klausturdeild og Skagafjarðardeild, hefur verið sæmd viðurkenningu fyrir að vera vel starfandi deild. Garðar Guðjónsson, formaður deildarinnar, tók við viðurkenningunni á aðalfundi Rauða kross Íslands sem haldinn var á Selfossi um helgina. Fulltrúar Kópavogsdeildar létu talsvert til sín taka á fundinum og tókst meðal annars að koma í veg fyrir að tillaga stjórnar um að halda aðalfundi aðeins annað hvert ár næði fram að ganga. 

Löng hefð er fyrir því í Rauða krossi Íslands að fulltrúar deildanna komi árlega saman á aðalfundi og fari þar með æðsta vald í málefnum félagsins. Í tillögum stjórnar að breytingum á lögum var meðal annars lagt til að aðalfundir yrðu haldnir aðeins annað hvert ár. Formaður og varaformaður Kópavogsdeildar fjölluðu ítarlega um tillögur stjórnarinnar og lögðust meðal annars eindregið gegn tillögunni um að fækka aðalfundum. Formaður lagði síðan fram breytingatillögur Kópavogsdeildar sem gerðu ráð fyrir að aðalfundir yrðu áfram haldnir ár hvert. Fulltrúar fjölmargra deilda tóku undir og lýstu yfir stuðningi við málflutning Kópavogsdeildar. Þegar sýnt þótti að ekki væri stuðningur við tillögu stjórnarinnar brá hún á það ráð að leggja til að málið yrði tekið af dagskrá og var það samþykkt. Aðalfundur verður því næst haldinn 2005.

Aðalfundurinn samþykkti ályktun þar sem hann fordæmdi „ítrekuð brot á Genfarsamningunum að undanförnu, þar á meðal hryðjuverkaárásir á óbreytta borgara, pyntingar á föngum og óhóflega beitingu vopnavalds sem hefur í för með sér ólýsanlegar þjáningar fyrir saklaust fólk.“

Úlfar Hauksson var endurkjörinn formaður Rauða kross Íslands til tveggja ára.