Gestir Dvalar leggja sitt af mörkum

8. jún. 2004

Handavinnuhópur Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða, tekur þátt í verkefni á vegum Rauða krossins sem nefnist Föt sem framlag. Handavinnuhópurinn, sem skipaður er sjö konum, var stofnaður í lok mars á þessu ári. Verkefnið felst í að útbúnir eru fatapakkar fyrir börn. Sjálfboðaliðarnir prjóna og sauma fatnað sem nýtist svo í neyðaraðstoð erlendis.

Að sögn Sigurbjargar Lundholm, sérhæfðs starfsmanns Dvalar, hefur verkefnið farið mjög vel af stað en konurnar prjóna teppi sem sett eru í fatapakkana.
-Þær eru mjög duglegar og hafa verið að taka handavinnuna með sér heim. Hingað til hafa þær verið þiggjendur hjá Rauða krossinum sem gestir Dvalar og nú finnst þeim mjög ánægjulegt að geta snúið hlutverkunum við og gefið af sér til Rauða krossins, segir Sigurbjörg.

Þrjú hundruð ungbarnapakkar voru sendir með flugvél sem fór í byrjun júní á vegum utanríkisráðuneytisins til Afganistans. Sjálfboðaliðar í deildum Rauða krossins í Árnessýslu, Kópavogi og Reykjavík auk handavinnuhóps eldri borgara í Gerðubergi áttu veg og vanda af pökkunum en í þeim voru handprjónuð ullarteppi og föt á ungabörn. Föt sem framlag hópurinn í Kópavogi hefur sent um 400 til 500 pakka á ári sem nýtast í neyðaraðstoð erlendis.