Kópavogsdeild aðstoðar börn í vanda í Albaníu

Kamillu Ingibergsdóttur

25. jún. 2004

Kópavogsdeild, Garðabæjardeild og Bessastaðahreppsdeild hafa ákveðið að fjármagna fræðsluverkefni fyrir 150 foreldralaus börn og börn í áhættuhópum í Albaníu. Markmið verkefnisins er einkum að draga úr brottfalli úr skóla.

 

Deildir Rauða kross Albaníu í bæjunum Gjirokastra, Permeti og Tepelena standa að verkefninu sem mun hefjast í september 2004. Gert er ráð fyrir að verkefnið standi í eitt ár. Það beinist að börnum á aldrinum 8-13 ára og fjölskyldum þeirra.

 

Verkefninu er ætlað að leysa vanda barna sem kljást við námsörðugleika eða hverfa frá námi meðal annars vegna félagslegra aðstæðna. Börn sem hrekjast úr skóla hefja vinnu ung, eiga á hættu að verða fórnarlömb mansals eða leiðast út í fíkniefnaneyslu en markmið verkefnisins er að börn sem hætt hafa námi hefji aftur skólagöngu og að dregið verði úr brottfalli úr skólum.

 

Albanía er neðarlega á listum sem gefnir eru út um þróun og velferð einstakra þjóða í heiminum. Aukin stéttaskipting og breiðara bil milli ríkra og fátækra hafa fylgt í kjölfar markaðshagkerfis. Á sama tíma er opinbera velferðarkerfið að hruni komið og þeir sem ekki hafa félagslegan stuðning fjölskyldu sinnar standa verst að vígi.