Kópavogsdeild svarar neyðarbeiðni frá Súdan

Kamillu Ingibergsdóttir

2. júl. 2004

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hefur samþykkt að veita 350.000 krónur til neyðaraðstoðar í Darfur í Súdan. Rauða krossi Íslands hefur borist viðbótar neyðar-beiðni frá Alþjóðaráði Rauða krossins. Í samvinnu við Rauða hálfmánann í Súdan hyggst Alþjóðaráðið nú endurskipuleggja starfsemi sína í vesturhluta Súdan vegna þeirra átaka sem geisa í héraðinu Darfur.  

 

Darfur er í vesturhluta Súdan með um sjö milljónir íbúa sem skiptast að mestu leyti í tvo hópa, bændur af afríkönskum uppruna og hirðingja af arabískum uppruna. Á undanförnum árum hefur aukin landeyðing skerpt á gömlum erjum milli hirðingja og bænda vegna vatnsbóla og ræktarlands. Þrátt fyrir undirritun samnings um vopnahlé í febrúar 2003 hafa vopnaðar sveitir haldið áfram að berjast og mikil þörf er á vernd fyrir almenna borgara. Átökin hafa orðið til þess að fólk neyðist til að flýja heimili sín. 

 

Alþjóðaráðið hyggst með framlögum til neyðarbeiðninnar vernda borgara gegn brotum á alþjóðamannúðarlögum og auka leitarþjónustu Rauða krossins til að sameina börn og foreldra sem hafa verið aðskilin. Auk þess verður vegalausu fólki veitt skjól og eldunaráhöld, hreint vatn og matur.