Veglegar gjafir til hjálparstarfs

17. sep. 2004

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hefur að undanförnu borist fjöldi peningagjafa. Velviljaðir Kópavogsbúar hafa gefið tugi þúsunda króna til hjálparstarfs.

Peningarnir munu að sjálfsögðu koma að góðum notum en framlögunum hefur verið komið til skila og renna til hjálparstarfs í Darfur í Súdan en þar ríkir nú neyðarástand. Að minnsta kosti milljón manna er á vergangi í Darfur og 150 þúsund hafast við í flóttamannabúðum í nágrannaríkinu Chad. Rauði kross Íslands tekur þátt í hjálparstarfinu með því að leggja fram fjármagn og senda fólk til að sinna brýnustu þáttum hjálparstarfsins.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands kann vel að meta þann hlýhug sem Kópavogsbúar sýna Rauða krossi Íslands og Kópavogsdeild með framlögum sínum og færir þeim bestu þakkir fyrir.