Öflugt kynningarstarf og fræðsla hjá Kópavogsdeild

4. maí 2012

Kópavogsdeild hefur sinnt öflugu fræðslu og kynningarstarfi í vetur. Má þar nefna heimsóknir í skóla með kynningu á starfi Rauða krossins og dreifingu kynningarefnis um hin fjölbreyttu verkefni deildarinnar líkt og heimsóknar -og hundavinaverkefnin. Auk þess voru ungir sjálfboðaliðar deildarinnar með umsjón yfir kynningarstarfi í félagsmiðstöðvum bæjarins. Hópurinn hefur nú farið með kynningar inn í langflestar félagsmiðstöðvar bæjarins og þar með náð til fjölmargra ungmenna á aldrinum 13-16 ára í Kópavogi. Kynningin samanstendur af fræðslu um Rauða krossinn, markmið hans, uppruna og starfsemi bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Þá er vakin athygli á fordómum og  farið í skemmtilega leiki með það að markmiði að vekja ungt fólk til umhugsunar. Deildin hefur líka haldið erindi  í Menntaskólanum við Hamrahlíð og Menntaskólanum í Kópavogi.

Að auki hefur fjöldi fólks sótt námskeið á vegum deildarinnar í vetur líkt og Skyndihjálp, Slys og veikindi barna og Börn og umhverfi.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu hjá Kópavogsdeild eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg er alltaf heitt á könnunni.