Stefnt að samvinnu í neyðarvörnum á höfuðborgarsvæðinu

Kamillu Ingibergsdóttur

14. okt. 2004

Á svæðisfundi Rauða kross deildanna á höfuðborgarsvæðinu sem haldinn var í gær settu deildirnar á fót vinnuhóp til að gera tillögur um hvernig þær geta sameiginlega unnið að neyðarvörnum á svæðinu. Formaður Kópavogsdeildar hefur haft forgöngu um að deildirnar hefji undirbúning að samvinnu í þessum efnum. 

  

Samþykkt var að skipa vinnuhóp með fulltrúum allra deilda og var honum falið að skila niðurstöðum í byrjun febrúar á næsta ári. Verkefni hópsins er að gera tillögu um hvernig deildirnar geta sameiginlega á sem skilvirkastan hátt brugðist með félagslegri fjöldahjálp og neyðaraðstoð við hvers kyns áföllum, stórum sem smáum.


Á fundinum lét Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Kópavogsdeild, af störfum sem formaður svæðisráðs en í stað hennar kemur Sigrún Jóhannsdóttir, formaður Álftanesdeildar. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir, stjórnarmaður í Kópavogsdeild, tekur sæti í ráðinu fyrir hönd Kópavogsdeildar.

Fjölmörg samstarfsverkefni deildanna voru rædd á fundinum í gær, svo sem Fjölsmiðjan, fataflokkun, námskeið og fleira.
Fundurinn samþykkti að beina þeim tilmælum til deildanna á höfuðborgarsvæðinu að þær skoði möguleika á áframhaldandi fjárhagsstuðningi við starf Fjölsmiðjunnar næstu tvö árin.