Samið um áframhaldandi rekstur Dvalar

5. nóv. 2004

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu, Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og Aðalsteinn Sigfússon félagsmálastjóri undirrita samninginn um Dvöl.
Rekstur Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða í Kópavogi, hefur verið tryggður til næstu tveggja ára. Samningur þess efnis var undirritaður í Dvöl nýverið. Að rekstri Dvalar standa Kópavogsdeild Rauða kross Íslands, Kópavogsbær og Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi. Með undirritun samningsins axla Kópavogsbær og svæðisskrifstofan stærri fjárhagslegar byrðar en áður en Kópavogsdeild sér áfram um rekstur athvarfsins.

- Undirritun þessa samnings er eitt ánægjulegasta verk sem ég hef unnið sem formaður Kópavogsdeildar Rauða krossins. Athvörfin okkar fyrir geðfatlaða eru að mínu mati með því allra besta sem Rauði krossinn hefur tekið sér fyrir hendur á innlendum vettvangi og það er mjög ánægjulegt að sjá Dvöl borgið næstu tvö árin, sagði Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar við undirritun samningsins.

Athvarfið var opnað 1998 að frumkvæði Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands en það er eitt fjögurra sambærilegra athvarfa sem rekin eru af Rauða krossinum og fleirum. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun gestanna, draga úr fordómum í garð geðfatlaðra og auka lífsgæði þeirra. Fjöldi sjálfboðaliða Kópavogsdeildar starfar í tengslum við athvarfið og sjá þeir meðal annars um að hafa það opið á laugardögum.