Starf með ungum innflytjendum hafið á ný

2. des. 2004

Nemendur og sjálfboðaliðar á góðri stundu.

Starf með ungum innflytjendum hófst á ný í gær en verkefnið hafði legið í dvala frá því í vor vegna kennaraverkfalls. Fagnaðarfundir urðu meðal sjálfboðaliða Kópavogsdeildar og nemenda í nýbúadeild Hjallaskóla og var tímanum að mestu varið í að endurnýja kynnin og fara í skemmtilega leiki.

Starf með ungum innflytjendum hófst í mars 2004 og er í samvinnu við nýbúadeild Hjallaskóla. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og geta meðal annars fengið aðstoð við heimanámið, málörvun og fræðslu um tómstundastarf í Kópavogi í gegnum kynningarstarf og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er hugsað sem eins konar samfélagsfræðsla sem börnin og sjálfboðaliðar geti haft gagn og gaman af.