Sjálfboðaliðar eru mikilvægt þjóðfélagsafl

Garðar H. Guðjónsson

5. des. 2004

Að vera sjálfboðaliði er um flest eins og að gegna starfi á vinnumarkaði. Maður hefur ákveðnar skyldur sem maður innir af hendi, oftast með reglubundnum hætti, fær til þess þjálfun og öðlast til þess reynslu. Maður hefur væntingar um starfið og leitast við að uppfylla þær væntingar sem gerðar eru til manns. Meginmunurinn er sá að sjálfboðaliðinn þiggur ekki laun önnur en ánægjuna af starfinu og þá trú að hann sé að gera gagn. Sjálfboðaliði er heldur ekki starfsheiti enda gegna sjálfboðaliðar afar fjölbreyttum störfum. Þúsund Íslendinga vinna sjálfboðið starf að staðaldri og gegna mikilvægu hlutverki á ýmsum sviðum samfélagsins. Í dag er einmitt alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans.

Ómetanlegt framlag
Mér þykir nærtækt að benda á það mikla starf sem á annað þúsund sjálfboðaliðar deilda Rauða krossins vinna um allt land til að byggja betra samfélag. Annað gott dæmi um öfluga hreyfingu á landsvísu sem borin er uppi af sjálfboðnu starfi er Slysavarnafélagið Landsbjörg. Við þurfum ekki annað en að minnast eldsvoðans í Klettagörðum um daginn til þess að sjá hvers Rauði krossinn og Slysavarnafélagið Landsbjörg eru megnug þegar á reynir. Fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar, kvenfélaga, kirkjunnar og ýmiss konar klúbba og félaga um allt land. Framlag þessara sjálfboðaliða er ómetanlegt fyrir velferðar- og öryggiskerfi landsins, íþrótta-, trúar- og menningarstarf. Æði margt myndi hreinlega ekki virka ef ekki væri fyrir sjálfboðaliðana.
Rannsóknir sem gerðar hafa verið með viðurkenndum aðferðum hér og erlendis sýna að kostnaður við að skipuleggja og halda uppi sjálfboðnu starfi skilar sér margfalt til samfélagsins í gegnum starf sjálfboðaliðanna. Athugun sem gerð var á fjárhagslegu verðmæti starfa sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins í fyrra sýndi að hver króna sem deildin ver til sjálfboðins starfs skilar sér áttfalt að verðmæti til samfélagsins. Mér finnst vert að gefa þessu gaum.

Rauða kross starf í 80 ár

Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur rifjar upp í sögu Rauða kross Íslands, Í þágu mannúðar, að nokkru eftir að Íslendingar fengu félagafrelsi með stjórnarskránni 1874 hófst skipulögð starfsemi líknarfélaga hér á landi. Lengi framan af höfðu konur algera forystu í þeim efnum. Sjálfboðaliðar líknarfélaga hjálpuðu fátækum og sjúkum og stuðluðu að heilsuvernd og uppbyggingu heilbrigðiskerfis í landinu af miklum dugnaði.
Alþjóðahreyfing Rauða krossins var stofnuð í Genf 1863 og náði fljótlega fótfestu víða um lönd. Það var þó ekki fyrr en um þetta leyti árs 1924 sem Rauði kross Íslands var stofnaður, nánar tiltekið 10. desember. Félagið fagnar því 80 ára afmæli um þessar mundir og til hamingju með það, Rauða kross fólk um allt land! Rauði kross Íslands náði hægt og bítandi að breiða fagnaðarerindi mannúðar út um landið, Rauða kross deildir voru stofnaðar hvarvetna fram eftir nýliðinni öld og eru nú 51 talsins. Rauða kross starf hér á landi er borið uppi af sjálfboðaliðum deildanna. Mér hefur veist sú ánægja að veita einni þeirra, Kópavogsdeild, forystu á undanförnum árum.

Fjölbreytt verkefni

Við í Kópavogi höfum leitast við að bjóða sjálfboðaliðum okkar fjölbreytt störf við hæfi og leggjum okkur fram um að laða fólk af báðum kynjum og á ýmsum aldri til sjálfboðinna starfa undir merkjum Rauða krossins. Nú starfa á annað hundrað sjálfboðaliðar með okkur að heimsóknaþjónustu, neyðarvörnum, starfi með geðfötluðum í Dvöl, með ungum innflytjendum, með unga fólkinu í Fjölsmiðjunni, við fataflokkun, í verkefninu Föt sem framlag, við stjórnun og skipulagningu og fleira.
Við eigum það sammerkt að starfa undir merkjum Rauða krossins af áhuga og sannfæringu um gildi markmiða Rauða krossins um mannúð, hlutleysi og óhlutdrægni. Margir njóta góðs af starfi deildarinnar. Það er einnig þekkt staðreynd að þeir sem taka þátt í sjálfboðnu starfi af þessu tagi hafa sjálfir af því mikla ánægju, meðal annars af félagsskapnum við aðra sjálfboðaliða. Síðast en ekki síst er afar þroskandi að taka þátt í starfi sem þessu, enda leggur deildin áherslu á að veita sjálfboðaliðunum þá þekkingu og þjálfun sem til þarf.

Geta karlar orðið heimsóknavinir?

Heimsóknavinir eru stærsti sjálfboðaliðahópurinn okkar og sá sem lengst hefur starfað. Við fögnuðum nýverið 20 ára starfsafmæli heimsóknavina. Í þeim fagnaði var heiðurskona á níræðisaldri sem hefur verið með frá upphafi en einnig ungar konur sem hafa starfað með okkur aðeins um skamma hríð. Já, konur á ýmsum aldri.
Karlar hafa semsé látið sig vanta í þennan góða félagsskap heimsóknavina. Ég vil því nota þetta tilefni til þess að hvetja kynbræður mína til dáða á þessu sviði. Heimsóknaþjónusta er í sjálfu sér ekki flókin og getur hentað körlum ekkert síður en konum. Margir þeirra sem geta notið góðs af þjónustunni eru karlar og vildu gjarna, með fullri virðingu fyrir konum, fá aðra karla í heimsókn.