Fjölsmiðjan fékk milljón frá Kópavogsdeild Rauða krossins

8. des. 2004

Þorbjörn Jensson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, tók við styrknum af Garðari H. Guðjónssyni, formanni Kópavogsdeildar.
Kópavogsdeild Rauða kross Íslands gaf Fjölsmiðjunni nýverið eina milljón króna til að bæta aðstöðu nema og starfsfólks bílaþvotta- og hússtjórnardeilda. Kópavogsdeild hefur þá styrkt uppbyggingu og rekstur Fjölsmiðjunnar með samtals ríflega átta milljónum króna á undanförnum þremur árum. Ennfremur hafa sjálfboðaliðar deildarinnar stutt við starfið.

Fjölsmiðjan í Kópavogi er mennta- og þjálfunarsetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára sem ekki hefur náð að fóta sig í námi og á vinnumarkaði. Markmiðið er að styðja nemana til þess að komast á ný til náms eða í vinnu og hefur náðst mjög góður árangur í því. Rauði kross Íslands átti frumkvæði að því að Fjölsmiðjan var stofnuð vorið 2001 og deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu hafa síðan stutt dyggilega við uppbyggingu og rekstur hennar.