80 ár liðin frá stofnun Rauða kross Íslands

Garðar H. Guðjónsson

10. des. 2004

Rauða kross fólk um allt land fagnar því að í dag eru 80 ár liðin frá stofnun félagsins á Íslandi. Þegar Rauði kross Íslands var stofnaður í Eimskipafélagshúsinu 10. desember 1924 höfðu Rauða kross félög starfað á Norðurlöndum og víðar í yfir hálfa öld. Íslendingar þekktu þó til hreyfingarinnar og hugsjóna hennar og að fengnu fullveldi þótti mörgum tímabært að „komast í tölu siðaðra þjóða“ með því að stofna „íslenskan Rauða kross“. Forgöngu um stofnun félagsins höfðu Sveinn Björnsson, fyrsti formaður félagsins og forseti lýðveldisins, og læknarnir Steingrímur Matthíasson og Gunnlaugur Claessen.

Félagið hóf starf sitt í þjóðfélagi sem til þessa hafði verið þiggjandi en ekki veitandi í hjálparstarfi. Velferðarkerfi var vart til að dreifa og heilbrigðis- og hreinlætismál voru í ólestri. Verkefni félagsins hafa síðan mótast af þörfum samfélagsins hverju sinni.

Heilbrigðismál og heilsuvernd voru langmest áberandi í starfinu nær alla síðustu öld; barátta gegn óþrifnaði og smitsjúkdómum, hjúkrun, fræðsla í skyndihjálp, blóðsöfnun og ekki síst sjúkraflutningar. Félagið hóf strax baráttu fyrir framförum í sjúkraflutningum. Fyrsti sjúkrabíll félagsins kom til Reykjavíkur 1926 og um síðir tókst að sjúkrabílavæða landið allt.

Akureyrardeild Rauða kross Íslands var stofnuð 1925. Síðan leið og beið uns Skagafjarðardeild var stofnuð 1940. Þá hófst markvisst útbreiðslustarf og nú starfar félagið í 51 deild um allt land.

Alþjóðlegt hjálparstarf hófst með aðstoð vegna jarðskjálfta í Chile 1939. Félagið tók þátt í að aðstoða hrjáða íbúa Evrópu á stríðsárunum og í kjölfar þeirra. Fyrsti sendifulltrúinn, Lúðvig Guðmundsson skólastjóri, aðstoðaði Íslendinga í Evrópu í lok stríðsins. Á síðustu tveimur áratugum 20. aldar óx alþjóðlegt hjálparstarf verulega. Rauði kross Íslands tók á móti flóttafólki frá Ungverjalandi 1956 og hefur síðan annast móttöku flóttamanna.

Rauði krossinn kynntist starfi að neyðarvörnum fyrst í ógnum síðari heimsstyrjaldarinnar. Verulega reyndi á styrk félagsins í kjölfar Vestmannaeyjagossins og þegar snjóflóð féllu á Súðavík og Flateyri 1995. Sjálfboðaliðar um allt land eru nú reiðubúnir að bregðast við slíkum áföllum.

Framan af reiddi félagið sig á framlög frá almenningi og tekjur af merkjasölu, hlutaveltum og skemmtunum. Straumhvörf urðu í fjáröflun þegar fyrsti söfnunarkassinn var settur upp 1972. Starfið efldist mjög í kjölfarið og á síðustu áratugum hefur félagið tekið þátt í kostnaðarsömum verkefnum í þágu sjúkra, aldraðra, geðfatlaðra og ungmenna. Starfið er þó borið uppi af á annað þúsund sjálfboðaliðum sem vinna mannúðarstarf um allt land.

Nánar:
Margrét Guðmundsdóttir: Í þágu mannúðar, saga Rauða kross Íslands 1924-1999. Mál og mynd, 2000.
Henry Dunant: Minningar frá Solferino. Rauði kross Íslands, 1994.