Viltu tala meiri íslensku? fer í sumarfrí

15. maí 2012

Nú er samverum í  verkefninu Viltu tala meiri íslensku? lokið í bili en þátttakendurnir í verkefninu voru með lokasamveru fyrir sumarfrí í liðinni viku. Hópurinn hefur hist vikulega í allan vetur í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs en þess fyrir utan hefur hann einnig hist á kaffihúsum, horft á kvikmyndir og farið  á listasýningar svo eitthvað sé nefnt.

Viltu tala meiri íslensku? er verkefni sem  hófst í janúar 2009 hjá Kópavogsdeild. Þar hitta íslenskir sjálfboðaliðar innflytjendur og tala saman á íslensku. Með verkefninu vildi Kópavogsdeild miða að því að ná til innflytjenda og gefa þeim tækifæri til að þjálfa sig í íslensku og bæta orðaforða sinn. Verkefninu er einnig ætlað að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem og auðvelda aðlögun þeirra að íslensku samfélagi.

Á samverum gefst fólki af erlendum uppruna tækifæri til að tala íslensku frjálslega og þjálfa sig í notkun málsins við ýmsar aðstæður. Þátttaka í verkefninu hefur aukist með árunum og margir einnig verið þátttakendur í því frá því það hófst.
Þátttakendur í verkefninu koma frá ólíkum löndum líkt og Hollandi, Frakklandi, Póllandi, Marokkó, Víetnam, Spáni, Þýskalandi, Rússlandi og Bretlandi. Þrátt fyrir mismikla kunnáttu í  íslensku hefur hópurinn átt skemmtilegar og gagnlegar samverustundir.

Öllum er velkomið að taka þátt þó mælt sé  með því að þátttakendur búi yfir grunnkunnáttu í íslensku. Allar frekari upplýsingar um verkefnið fást með því að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]