Starfið felst í því að veita fólkinu hlýju og umhyggju

Hlé Guðjónsson

3. feb. 2005

Þriðjudaginn 1. febrúar var haldinn fræðslufundur og hópefli fyrir heimsóknavini Kópavogsdeildar að Hamraborg 11. Starfsmaður frá hjúkrunarheimilinu Landakoti hélt fyrirlestur um aðhlynningu aldraðra, en kynningar af því tagi eru fastur liður í starfi heimsóknavina Rauða krossins.

'Fræðslufundir af þessu tagi hjálpa okkur að bæta þjónustuna sem við veitum og ekki er síður mikilvægt að við sjáum og hittum hver aðra. Hér á þessum fundum ræðum við starf okkar og það sem  þarf að gera í framtíðinni,' segir Pálína Jónsdóttir heimsóknarvinur.

Rúmlega 25 heimsóknavinir fara reglulega í heimsóknir á dvalarheimili aldraðra í Sunnuhlíð í Kópavogi og Skjólbraut og Gullsmára, sambýli fyrir aldraða. 12 manns til viðbótar heimsækja einstaklinga sem enn búa heima hjá sér en hafa þörf fyrir félagsskap og afþreyingu. 

'Okkur vantar alltaf fleiri sjálfboðaliða til að heimsækja aldraða og aðra þá sem þurfa á félagsskap og hlýju að halda,' segir Vilhelmína Þorvaldsdóttir sem verið hefur heimsóknarvinur lengi. 'Nú er komið nýtt heimili fyrir heilabilaða í Salahverfi og það þarf að fjölga heimsóknarvinum hér hjá Kópavogsdeild til að geta veitt aðstoð þar líka.'

'Starfið felst í því að veita fólkinu hlýju og umhyggju', segir Pálína. 'Við förum með fólkinu í gönguferðir og sjáum því fyrir alls kyns afþreyingu. Það eru haldin bingókvöld og farið í ferðir á Þjóðminjasafnið og í messu. Það er mikil þörf fyrir þessa þjónustu og við gætum sjálfsagt notað helmingi fleiri sjálfboðaliða.'