Fatasöfnunardagur Rauða krossins og Eimskips á Uppstigningardag 17. maí

16. maí 2012

Í tilefni fatasöfnunardagsins verða sérstakir söfnunargámar við alla sundstaði ÍTR í Reykjavík, sundlaugar í Kópavogi, Garðabæ og á Álftanesi, Lágafellslaug í Mosfellsbæ og við Ásvallalaug í Hafnarfirði. Á landsbyggðinni verður tekið á móti fötum, skóm og vefnaðarvöru á móttökustöðvum Eimskips Flytjanda. Að vanda er einnig hægt að skila fatnaði á endurvinnslustöðvar Sorpu. Fólk er beðið um að skila fatnaði í lokuðum plastpokum til að koma í veg fyrir óhreinindi og auðvelda flokkun.

Hvað verður um fötin?
Einn hluti fatnaðarins fer beint í neyðaraðstoð hér heima og erlendis. Annar hluti fer í endursölu í Rauða kross búðunum og erlendis. Það sem er ónothæft er selt í endurvinnslu. Gamlar gardínur, rifin rúmföt og háöldruð handklæði eiga því líka erindi í söfnunargámana því það sem ekki er nothæft er selt til endurvinnslu og skilar þannig verðmætum. Fatasöfnunin orðin eitt af mikilvægustu fjáröflunarverkefnum Rauða krossins og rennur allur ágóði til hjálparstarfs.

Hreinsaðu til í skápum heimilisins, láttu gott af þér leiða og skelltu þér í sund í leiðinni. Þér mun líða betur á eftir.

Takk fyrir stuðninginn!