Ágóði af fatamarkaði Kópavogsdeildar til barna í neyð

12. maí 2005

Fjöldi fólks gerði góð kaup til styrktar góðu málefni.
Fjöldi fólks lagði leið sína á fatamarkað Kópavogsdeildar Rauða krossins sem haldinn var í tilefni af alþjóðadegi Rauða krossins 8. maí. Á markaðnum voru seld notuð föt til styrktar börnum í neyð vegna alnæmisvandans í Malaví. Salan gekk afar vel því alls söfnuðust 91.500 kr.

Kópavogsdeild þakkar öllum þeim sem komu á markaðinn og keyptu föt. Þar að auki eiga þakkir skyldar allir þeir sjálfboðaliðar sem tóku þátt í að undirbúa og halda markaðinn. Ekki er útilokað að annar fatamarkaður verði haldinn á vegum deildarinnar áður en langt um líður.

Ágóðinn af fatamarkaðnum mun nýtast vel í þeim verkefnum í Malaví sem Rauði kross Íslands tekur þátt í. Í Malaví hefur fjöldi barna smitast af alnæmi, misst foreldra sína úr sjúkdómnum eða hvort tveggja. Rauði krossinn hlúir að þessum börnum og heldur jafnframt uppi öflugu forvarna- og fræðslustarfi.