Byggjum betra samfélag

15. ágú. 2005

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hvetur Kópavogsbúa og aðra höfuðborgarbúa til þátttöku í Menningarnótt í Reykjavík 20. ágúst þar sem Rauði kross Íslands stendur fyrir stórtónleikum á Miðbakka undir yfirskriftinni „Byggjum betra samfélag“. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og eru haldnir í samvinnu við Rás 2 og Íslandsbanka.

Sjálfboðaliðar óskast til að manna risatjald á tónleikasvæðinu þar sem gestir Menningarnætur geta fengið sér hressingu og keypt armbönd með áletruninni „Byggjum betra samfélag“ sem er heitið á nýju 4 ára verkefni Rauða kross Íslands þar sem áhersla verður lögð á að stuðla að betra samfélagi án mismununar. Áhugasamir sjálfboðaliðar hafi samband í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.

Sjálfboðaliðar sem og aðrir eru jafnframt hvattir til að taka þátt í karnivalgöngu Alþjóðahússins sem leggur af stað frá Hlemmi niður Hverfisgötuna kl. 20.00. Þetta verður fjölmenningarleg ganga með framandi tónum, dansi og húllumhæi.

Dagskráin á Miðbakka:
20.50 Fjölþjóðlegur barnakór Ellenar Kristjánsdóttur og Eyþórs Gunnarssonar syngur lög af væntanlegum geisladiski þeirra á stóra tónleikasviðinu á Miðbakka.

21.00 Tónleikarnir hefjast. Hljómsveitirnar Í svörtum fötum, Hjálmar, KK og Maggi Eiríks, Todmobile skemmta gestum í þær tvær klukkustundir sem þeir standa.

23.00 Flugeldasýning og dagskrárlok.