Pólskir Rauða kross félagar í heimsókn

18. ágú. 2005

Þorbjörn Jensson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, sýnir gestunum trésmíðaverkstæði Fjölsmiðjunnar.
Kópavogsdeild fékk í gær heimsókn frá fulltrúum pólska Rauða krossins, þeim Marek Malczewski framkvæmdastjóra landsfélagsins og Krzysztof Kedzierski sem sér um innri uppbyggingu pólska Rauða krossins. Þeir félagar eru á Íslandi í nokkra daga til að fræðast um verkefni og innri uppbyggingu Rauða kross Íslands og sækja sér fyrirmyndir fyrir störf sín í Póllandi.
Gestirnir komu í sjálfboða-miðstöð Kópavogsdeildar og fengu upplýsingar um deildina og helstu sjálfboðaverkefni. Því næst lögðu þeir leið sína í Fjölsmiðjuna og Dvöl og fengu kynningu á þeirri starfsemi sem þar fer fram.

Verkefni deildarinnar vöktu hrifningu þeirra félaga. Þeir sögðu síðan frá starfinu í Póllandi en helsta verkefni pólska Rauða krossins er sem stendur matargjafir til fátækra barna en árlega þiggja um 40.000 börn mat í gegnum pólska Rauða krossinn, mörg þeirra daglega.