Kópavogsdeild aðstoðar 150 börn í vanda í Albaníu

26. ágú. 2005

Skóli í bænum Gjirokastra.

Kópavogsdeild tekur þátt í verkefni albanska Rauða krossins sem snýr að börnum og ungmennum í neyð. Verkefnið miðar að því að koma í veg fyrir mikið brottfall barna úr skóla og hættunni á vinnuþrælkun barna, mansali og eiturlyfjaneyslu.

150 börn úr bæjunum Gjirokastra, Permet og Tepelene í Albaníu hljóta nú aðstoð við að aðlagast vel skóla og samfélagi í gegnum nám og félagsstarf. Tekist hefur að auka hvata barnanna til náms og efla félagslega færni þeirra. Sum þessara barna eru munaðarlaus, hafa búið á götunni eða við mjög slæmar félagslegar og efnahagslegar aðstæður.

Verkefnið nær yfir eitt ár og lýkur nú í október. Hluti verkefnisins var þátttaka barnanna í sumarbúðum í júlí. Fjöldi sjálfboðaliða innan albanska Rauða krossins tekur þátt í verkefninu sem nýtur fjárstuðnings Kópavogsdeildar.

Þörf er á mikilli samfélagslegri uppbyggingu í Albaníu. Í þeirri uppbyggingu er mikilvægt að mæta þörfum barna og ungmenna enda er það eitt af áhersluverkefnum albanska Rauða krossins. Kópavogsdeild hefur síðan 2002 átt í vinadeildasamstarfi við Rauða kross deild í bænum Gjirokastra í sunnanverðri Albaníu og veitt aðstoð við að hrinda verkefnum í framkvæmd.