Sjálfboðaliðar í Dvöl hefja hauststarfið

2. sep. 2005

Í haust munu um 10 sjálfboðaliðar starfa í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og skipta með sér vöktum á laugardögum. Sjálfboðaliðarnir hittust í vikunni til að stilla saman strengi fyrir starfið sem er framundan. Í hópnum eru tveir nýir sjálfboðaliðar sem munu njóta góðs af reynslu reyndari sjálfboðaliða fyrst um sinn enda starfa ávallt tveir saman á vakt.

Sjálfboðaliðar í Dvöl hafa verið virkir
í rekstri athvarfsins frá stofnun þess árið 1998. Sem sjálfboðaliðum Rauða krossins er þeim veitt nauðsynleg þjálfun og fræðsla án endurgjalds, svo sem námskeið í skyndihjálp og sálrænni skyndihjálp. Nýir sjálfboðaliðar eru alltaf velkomnir í hópinn og áhugasamir geta sett sig í samband við Kópavogsdeild Rauða krossins.

Dvöl er til húsa í Reynihvammi 43. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Gestir koma í athvarfið á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi.

Nánari upplýsingar um starfsemina er á heimasíðu Dvalar.