Heimsóknavinir fræðast um nýtt sambýli aldraðra í Kópavogi

8. sep. 2005

Guðrún Viggósdóttir sagði frá sambýli minnissjúkra í Roðasölum.

Á fundi heimsóknavina á þriðjudag hlýddu heimsóknavinir Kópavogsdeildar á erindi um nýtt sambýli aldraðra í Kópavogi. Guðrún Viggósdóttir, forstöðukona sambýlisins í Roðasölum, sagði frá starfseminni sem er rekin í þágu minnissjúkra. Á sambýlinu búa 8 einstaklingar en þar er jafnframt starfrækt dagvistun fyrir um 20 aðra á virkum dögum.

Sambýlið hóf starfsemi fyrr á árinu og hefur mætt brýnni þörf minnissjúkra og aðstandenda þeirra. Guðrún sagði ómetanlegt starf þeirra sjálfboðaliða Kópavogsdeildar sem eru að hefja störf við sambýlið, annað hvort með heimsóknum til einstakra vistmanna eða með því að stýra samverustundum. Enn er þörf á fleiri sjálfboðaliðum við sambýlið í Roðasölum og í önnur verkefni heimsóknavina í Kópavogi.

Heimsóknavinir Kópavogsdeildar eru samtals um 40, þar af um 25 sem starfa í Sunnuhlíð og á sambýlum aldraðra í Kópavogi og um 15 sinna heimsóknum á einkaheimilum. Heimsóknavinir leitast við að rjúfa einsemd og félagslega einangrun einstaklinga með upplyftingu á borð við spjall, upplestur, göngu- og ökuferðir.

Hægt er að gerast heimsóknavinur með því að hafa samband við Kópavogsdeild Rauða krossins. Kynningarfundur um sjálfboðið starf deildarinnar verður fimmtudaginn 15. september kl. 20 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11.