Vellukkað landsmót athvarfa fyrir geðfatlaða

21. sep. 2005

Þátttakendur á landsmótinu í Dölunum.
Athvörf Rauða krossins fyrir geðfatlaða héldu sameiginlegt landsmót 14.-16. september að Laugum í Sælingdal (eða „Sæludal“ eins og ánægður mótsgestur kallaði staðinn að afloknu móti). Gestir og starfsfólk athvarfanna Dvöl, Vin og Laut mættu til leiks en fulltrúar frá athvarfinu Læk í Hafnarfirði áttu því miður ekki heimangengt að þessu sinni.

Lagt var af stað vestur í Dali 14. september og hittust mótsgestir hressir á Laugum, gæddu sér á góðum veitingum, fengu sér sundsprett og sungu og trölluðu fram á kvöld.

Daginn eftir var mótsgestum ekið árla morguns í Búðardal þar sem fulltrúi Búðardalsdeildar Rauða krossins, Jóhann Sæmundsson, hitti hópinn klæddur sem ekta víkingur frá söguslóðunum sem hann síðan lóðsaði hópinn um. Ekið var með hópinn í Haukadal og víkingabærinn Eiríksstaðir skoðaður. Því næst var farið um Suðurdali, Laxárdal og loks var kirkjan í Hjarðarholti skoðuð. Rauðakrossfólk bauð svo upp á dýrindis máltíð í Dalakjöri í Búðardal við mikla ánægju ferðalanga. Síðan var hópnum skilað inn að Laugum þar sem fólk skemmti sér langt fram á nótt við leiki, söng og dans. Daginn eftir hélt hver til síns heima og voru allir sammála um að mótið í ár hefði verið einstaklega vellukkað og ætti Rauðakrossdeildin í Dölunum miklar þakkir skilið fyrir höfðinglegar móttökur.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Gestir koma í athvarfið á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Sjálfboðaliðar hafa verið virkir  í rekstri Dvalar frá upphafi og sjá m.a. um að halda athvarfinu opnu á laugardögum.