Ungir innflytjendur mættir að nýju í sjálfboðamiðstöðina

23. sep. 2005

Margir leikir vekja kátínu í starfi með ungum innflytjendum.

Starf með ungum innflytjendum hófst aftur í vikunni samfara nýju skólaári. 10 nemendur úr nýbúadeild Hjallaskóla mættu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og áttu skemmtilega samverustund með fjórum sjálfboðaliðum deildarinnar.

Byrjað var á að fara í nafnaleiki enda ný andlit í hópi nemenda og sjálfboðaliða. Því næst var farið í málörvunarleiki og rætt um hvað hver og einn gerði í sumarfríinu. Framundan er fjölbreytt vetrarstarf með krökkunum sem er skipulagt af hópi sjálfboðaliða.

Starf með ungum innflytjendum er eitt verkefna Kópavogsdeildar sem snýr að börnum og ungmennum. Verkefnið er í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla og hófst í mars 2004. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og fá meðal annars málörvun og fræðslu um tómstundastarf í Kópavogi í gegnum kynningarstarf og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.